ish.is

english

 

breyta

Íþróttahús Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu var reist árið 1935 og var það fyrsta húsið með einhverju áhorfendarými ca. 150 manns  á svölum við annan endann, 20x11 m salur. Þar hófst opinber keppni í handknattleik árið 1940. Síðar voru byggðir tveir salir með  ofurlitlu áhorfendasvæði á svölum, Íþróttahús Háskóla Íslands við Suðurgötu árið 1948 (24x12 m ) og stærri salur Gagnfræðaskóla Austurbæjar við Barónsstíg árið 1949 (19.5 x 14 m). Þessir salir urðu aldrei keppnissalir nema e.t.v. fyrir glímu, því að bandaríski herinn hafði reist allstórt íþróttahús austarlega við Suðurlandsbraut árið 1942, keppnisgólfið var 30 x 11 m og áhorfendasvæði við báðar langhliðar fyrir samtals ca.800 manns. Skömmu eftir að íþróttahúsið hafði verið byggt,var yfirhershöfðingi bandaríska hersins í Bretlandi og á Íslandi, Andrews hershöfðingi, á leið í sprengjuflugvél til Íslands í eftirlitsferð en svo slysalega tókst til í þoku, að flugvélin flaug inn í fjallið Þorbjörn við Grindavík og fórust þar allir um borð, að undanskyldri stélskyttunni. Slys þetta leiddi til þess, að Eisenhower tók við sem yfirmaður heraflans með framhaldi sem allir þekkja.
 Húsið var nefnt Andrews Hall í virðingarskyni við hershöfðingjann og  var notað sem æfinga- og keppnishús hersins í körfuknattleik og hnefaleikum. Það var einnig notað fyrir samkomur á vegum Afþreyingardeildar bandaríska heraflans og það kvisaðist á styrjaldarárunum út um höfuðborgina, að þarna hefðu stjörnur á borð við Marlene Dietrich og Bob Hope komið fram, en með lausum stólum rúmaði húsið 2000 – 2500 manns. Af stólum var nóg í húsinu en 1200 stólar fylgdu með í kaupum hússins. Til þess að tryggja skjóta rýmingu hússins við neyðartilfelli, t.d. flug óvinaflugvéla yfir svæðinu, voru þrennar útgöngudyr á hvorum gafli. Þegar herinn hafði haustið 1944 flutt stærsta hluta heraflans hér á landi til Normandie, fékk íþróttahreyfingin afnot af húsinu með ströngum skilyrðum þó,  en þau voru þessi:
 
1. Að Þorsteinn Gíslason, hnefaleikakennari, fengi afnot hússins á undan öðrum fyrir hnefaleikakeppni. 
2.  Að tilkynnt væri með 14 daga fyrirvara um afnot hússins.
3.  Að húsinu væri skilað hreinu.
4.  Að herstjórnin fengi 50-100 ókeypis aðgöngumiða að hverri keppni eða sýningu, sem fram færi í húsinu.
5.  Að 25% af aðgangseyri  rynni til góðgerðastarfsemi bandaríska Rauða Krossins.
 
Veturinn 1944 – 45 fóru fram mótaleikir í handknattleik og handknattleiksmót framhaldsskólanna í húsinu en þann vetur og fram á ársbyrjun 1946 var húsið á vegum herstjórnarinnar. Menn fengu þá tækifæri til þess að kynna sér húsið og leiddi það til þess, að þrjú stóru félögin., Ármann, ÍR og KR, gerðu með sér samkomulag um að kaupa húsið sér til framdráttar.
Hinn 31. ágúst 1944 höfðu íþróttafélögin 14 í Reykjavík stofnað með sér samtök, Íþróttabandalag Reykjavíkur, og var fyrsti formaður þess Gunnar Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður og borgarfulltrúi. Með honum í stjórn var Gísli Halldórsson, arkitekt, en hann var gjaldkeri stjórnarinnar. Þeir höfðu forgöngu um, að hið unga bandalag eignaðist þetta bráðabirgðaíþróttahús til hagsbóta fyrir öll íþróttafélög bandalagsins. Þeir höfðu stuðning Íþróttanefndar ríkisins og borgarstjórnar. Sölunefndin taldi þó þessi 3 stóru félög líklegri til þess að rísa undir kaupum hússins en þó þróuðust málin  svo, að ÍBR var selt húsið fyrir kr. 237.000.-. Deilan við þessi þrjú stóru félög varð til þess, að Gunnar Þorsteinsson sagði af sér sem formaður ÍBR.
“Í febrúar 1946 mælti Jóhann Hafstein á Alþingi fyrir frumvarpi um æskulýðshöll í Reykjavík. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að ríkissjóður og Reykjavíkurborg reistu sameiginlega æskulýðshöll í höfuðborginni og bæru báðir aðilar  jafnan kostnað af byggingunni og rekstri hallarinnar en Reykjavík legði til ókeypis hæfilega lóð undir
hana.”
Það var þó ekki alveg úr sögunni því að ungliðafélög fjögurra stjórnmálaflokkanna í Reykjavík boðuðu til fundar um málið. Boð um fundarsetu fengu ÍBR, íþróttafélögin í Reykjavík, skátarnir, templarar og iðnnemar. Enda þótt framkvæmdastjórn ÍBR teldi ný lög um skemmtanaskatt og félagsheimili tryggja íþróttafélögunum aðstoð ríkisins til þess að koma sér upp aðsetri og starfsaðstöðu, tóku 14 íþróttafélög í Reykjavík þátt í stofnun samtaka, Bandalag Æskulýðsfélaga í Reykjavík, BÆR,  árið 1948 með þátttöku annarra æskulýðsfélaga.
Bæjarstjórn Reykjavíkur lagði til lóð undir æskulýðshöll í vesturenda Laugardalsins, austan við æfingasvæði Glímufélagsins Ármanns og núverandi Kringlumýrarbraut og meðfram Sigtúni. Gísli Halldórsson arkitekt var ráðinn til að hanna mannvirkið og síðan var hafizt handa á svæðinu. Grafin var mikil hola fyrir grunnplötunni en síðan ekki söguna meir, enda engir peningar fyrir hendi.
Bæjarstjórn Reykjavíkur sendi ársþingi BÆR árið 19XX tilmæli um, að fyrsti áfangi væntanlegrar æskulýðshallar yrði íþróttasalur og boðaði jafnframt, að bæjarstjórn myndi leggja fram kr. 200.000.- í þær framkvæmdir. - Næstu árin var fundað með fulltrúum ÍBR og BÆR um þessar fyrirhuguðu framkvæmdir en engin niðurstaða fékkst.
Íþróttahúsinu við Hálogaland var ekki ætlað  að endast nema til styrjaldarloka og eftir yfirtöku ÍBR var hvorki  ástæða né fjárhagsleg rök fyrir dýrum endurbótum eða breytingum. Það átti eftir að breytast, er mænuveikifaraldur stakk sér niður í Reykjavík haustið 1955 og var starfrækslu hússins frestað samkvæmt tilmælum heilbrigðisyfirvalda, sem og starfsemi í öðrum íþróttahúsum í borginni.
Þegar hefja átti starfsemi að nýju eftir áramótin komu fram verulegar frostskemmdir á hitakerfi hússins og olíukatli, svo og eldur í kyndiklefa. Eftir gagngerar endurbætur og endurnýjun kyndiklefans, en þessar framkvæmdir tóku 6 vikur, hófst íþróttastarf að nýju af miklum krafti um miðjan febrúar.
Haustið 1956 sóttu fræðsluyfirvöld um afnot hússins fyrir leikfimikennslu skólanna í Réttarholtshverfi og bætt afkoma af þeim sökum auðveldaði frekari endurbætur.og viðhald og var það til mikilla bóta fyrir notendur, þar eð ekki bólaði á nýju íþróttahúsi í stað Hálogalands.
 
Sumarið 1955 fór stjórn BÆR fram á, að teknar yrðu upp að nýju viðræður milli ÍBR og BÆR um möguleika á samvinnu þessara aðila um byggingu mannvirkja á lóð æskulýðshallar BÆR við Sigtún. Komst á samkomulag um fyrirkomulag bygginga og framkvæmdir, en meinið var, að báðir aðilar voru févana!
Hinn 14. janúar 1956 skipaði borgarstjórn 5 manna nefnd til þess að athuga möguleika á að koma á víðtækri samvinnu um byggingu við Sigtún og fá fleiri aðila til þátttöku Var nefndinni settur þriggja vikna frestur til þess að skila áliti. Í nefndinni voru formenn ÍBR og BÆR, framkvæmdastjóri Félags Íslenzkra Iðnrekenda, fulltrúi borgarstjóra og fræðslufulltrúi Reykjavíkur.
Nefndin skilaði áliti og lagði til, að komið yrði upp íþróttahúsi á lóð BÆR, skálum fyrir sýningar iðnrekendasamtakanna og fleiri aðila, án þess þó að afnotaréttur íþróttahreyfingarinnar af íþróttahúsinu skertist nokkuð. Eftir nánari skoðun lagði nefndin til, að staðsetningu yrði breytt og íþróttahúsið yrði byggt í Laugardalnum milli Þvottalaugavegar og Suðurlandsbrautar. Ástæður þessara breyttu tillagna voru m.a. þær, að sumarið 19XX var efnt til umfangsmikillar vörusýningar í Miðbæjarskólanum og var með ærnum tilkostnaði komið fyrir þaki yfir skólaportið og þetta var endurtekið árið 19XX í Austurbæjarbarnaskóla og þá einnig með augastað á  samnýtingu bifreiðastæða við Laugardalsvöll.
Hinn l. nóvember 1956 samþykkti borgarráð samkomulag um þessar framkvæmdir og var gert ráð fyrir, að borgarsjóður legði fram 51% byggingarkostnaðar, ÍBR 4%, BÆR 4% og aðrir aðilar 41%.
Fyrsti áfangi á fyrirhuguðu sýningarsvæði yrði íþróttahús og ráðgert, að þar yrði komið fyrir:
1.   Íþróttasalur 25 x 56 m.
2.  Áhorfendarými fyrir 2000 manns í sætum og 500 manns í stæðum. Laus sæti yrðu fyrir ca. 800 manns, en föst fyrir ca. 1200 manns.
3.   Leiksvið, sem hægt yrði að nota fyrir fundi. Stærð ca. 10 x 20 m.
4.   Veitingasalur með tilheyrandi eldhúsi.
5.    Fjögur búningsherbergi með tilheyrandi böðum og þurrkherbergjum.
6.    Tvö lítil kennaraherbergi.
7.    Rúmgóð forstofa með fatageymslu og snyrtiherbergjum.
8.    Rúmgóðar geymslur, líklega í kjallara. 
9.    Skrifstofuherbergi og herbergi fyrir húsvörð.
 
Borgarráð samþykkti í nóvember 1956 að ráðast í  framkvæmdir við “sýninga- og íþróttahús” í Laugardalnum og 16. nóvember 1957 undirrituðu fulltrúar ÍBR, BÆR, Sýningarsamtaka atvinnuveganna svo og borgarstjóri samning um bygginguna. Samkvæmt þessum samningi skyldi 7 manna byggingarnefnd skipuð 3 fulltrúum borgarinnar, 3 fulltrúum Sýningarsamtakanna og einum frá ÍBR og BÆR.
Byggingarnefndin réð arkitektana Gísla Halldórsson og Skarphéðinn Jóhannsson til þess að teikna húsið og lágu frumteikningar fyrir í ársbyrjun 1959. Framkvæmdir hófust og grafið var fyrir grunni en þá varð að gera hlé á framkvæmdum þar sem færzt hafði verið of mikið í fang. Teikningar voru endurnýjaðar og umfangið minnkað, gólfflötur minnkaður og áhorfendasvæði skorið niður. Bygging hússins var boðin út vorið 1961 og var tilboði Almenna Byggingarfélagsins tekið.
Vorið 1962 óskaði stjórn BÆR eftir því, að ÍBR yfirtæki  eignarhlut þess í mannvirkinu og var gengið frá samningi þar að lútandi vorið 1963, þannig að ÍBR yrði aðili að byggingunni að 8% en BÆR hyrfi út. Sýningarsamtökin stóðu ekki í skilum með greiðslur upp í 41% af kostnaði og stöðvaði borgin þá framkvæmdir og var gert hlé í tvö ár en samningar við borgina um skuldaskil Sýningarsamtakanna stóðu yfir mikið lengur og í febrúar 1970 yfirtók borgin eignarhlut samtakanna og átti eftir það 92%.
Við þessar tafir á framkvæmdum leitaði handknattleikshreyfingin til bandaríska hersins um afnot af stóru íþróttahúsi hans á Keflavíkurflugvelli. Húsið var með handknattleiksvöll 20 x 40 m og með miklum tilfæringum var unnt að koma fyrir aðstöðu fyrir ca. 3000 áhorfendur. Íþróttasinnaðir starfsmenn Íslenzkra Aðalverktaka útbjuggu. stallaðar undirstöður úr plönkum, 4”x4” og á þessar undirstöður vöru lögð 2” þykk borð. sem fest voru tryggilega á undirstöðurnar. Á milli leikja var þetta mikla magn af timbri geymt í efnisskála Aðalverktaka og fyrir hvern leik kom hópur sjálfboðaliða til þess að flytja efnið í húsið, koma stæðum fyrir og ganga frá efninu eftir leik í geymslunni   Þetta framtak ýtti undir, að framkvæmdir við Sýningahúsið lögðust ekki alfarið niður.
Almenna Byggingarfélagið hóf framkvæmdir við bygginguna í ágúst 1961 og í september 1963 var þakhvelfingin steypt á 4 sólarhringum. Ári síðar var farið að hilla undir, að húsið yrði nothæft fyrir íþróttaiðkun og var áætlað, að lokaátakið myndi kosta ca. kr. 10.000.000.- og var gengið frá framlagi borgarsjóðs kr. 5.000.000.- í fjárhagsáætlun. Þá bauðst handknattleiksdeild Fram,.sem átti von á tékknesku handknattleiksliði, Banik Karvina frá Gottwaldov (nú Zlin), í heimsókn í desember 1965, til að leggja til sjálfboðaliða til að vinna við að gera húsið nothæft og var gerð áætlun um lágmarksframkvæmdir, svo að af því gæti orðið. Innan raða handknattleiksmanna voru fjölmargir iðnaðarmenn, m.a. húsasmiðir og vélvirkjar, sem fengu sig lausa úr vinnu með velvilja atvinnuveitenda. Skipulag og skrásetning var í höndum handknattleiksdeildar Fram, en ekki var eingöngu um félaga úr Fram að ræða, heldur komu einnig að verkinu félagar úr öðrum íþróttafélögum og má þar nefna handknattleiksmenn úr FH.
“Bygging Laugardalshallar  var mikið þrekvirki á sínum tíma og margir lögðu hönd á plóginn. Íþróttafólk í Reykjavík hljóp undir bagga við lokafráganginn og var unnið jafnt nætur sem daga síðustu dagana fyrir opnun hússins. Erfiðlega gekk að fá trésmiði til þess að leggja salargólfið og gerðu þá nokkrir trésmiðir innan raða handknattleiksmanna tilboð í verkið og var unnið sleitulaust undir stjórn Karls Benediktssonar, þjálfara Fram og landsliðsins, frá 23.október. Síðustu dagana var hið
íslenzka verklag í hávegum haft. Á miðvikudagskvöldi og fimmtudagsnótt var salargólfið lakkað, handknattleiksvöllur merktur aðfararnótt laugardags með 3M límbandi, mörkin sett upp á laugardagsmorgni og leikurinn gegn Tékkunum hófst síðdegis sama dag.”
Laugardalshöllin var þannig tekin í notkun laugardaginn 4. desember 1965 með leik úrvalsliðs Reykjavíkur gegn tékkneska handknattleiksliðinu Banik Karvina að viðstöddum borgarstjóra og borgarstjórn, menntamálaráðherra, byggingarnefndinni og stjórn íþróttasamtakanna

 

 
ITR logo isi  ibr hsi Fri  bli  

kki

midi

 

Þú ert hér: